Grunnhönnun

Grunnhönnun RHnet byggir á IP samskiptastaðlinum yfir gigabit ethernet á ljósleiðrum. Rekstraröryggi er tryggt með því að hringtengja tengipunkta á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri og nota IP beiningaraðferðir til að beina umferð framhjá bilunum. RFC-3704 síun er notuð á tengingum sérhvers aðila að RHnet. Sjá álagsmerkt kort af RHnet til glöggvunar.

Höfuðstöðvar RHnet eru í Neshaga 16 og þar tengist Háskóli Íslands, Listaháskóli Íslands og Veðurstofa á 10Gbs sambandi og aðrir aðilar á 1Gbs samböndum. Þar eru einnig tengdar flestar þjónustuvélar RHnet. Frá Neshaga er 10Gbs tenging í eldri höfuðstöðvar RHnet í Tæknigarði við Dunhaga. Þar er önnur tenging til Háskóla Íslands ásamt lághraða safnsamböndum þeirra sem tengjast RHnet um net annara þjónustuaðila (Símans, Vodafone og Símafélagins). Frá Neshaga 16 er 10Gbs tenging til RHnet tengipunkts við Grennsásveg (þar sem enginn tengist eins og er), þaðan að Keldnaholti þar sem Belgingur, Landbúnaðarháskóli Íslands og Matís ohf tengjast. Á Keldnaholti er einnig tenging við Hvanneyri og Bifröst. Frá Keldnaholti er tenging við tengipunkt við Bústaðaveg þar sem Veðurstofa Íslands og Landspítali - Háskólasjúkrahús tengast, síðan í Nauthólsvík þar sem Háskólinn í Reykjavik tengist. Síðan liggur leiðin að Hringbraut þar sem Landspítalinn - Háskólasjúkrahús, Krabbameinsfélag Íslands og Háskólinn í Reykjavík tengjast og þaðan er hringnum síðan lokað með 10Gbs tengingu í Tæknigarð aftur.

Hver RHnet tengipunktur er því tvítengdur og verði slit á ljósleiðurum er umferð ávallt beint eftir hringnum stystu virka leið með OSPF leiðstjórn. Í hverjum tengipunkti eru beinar sem taka við umferð tengdra aðila á 1Gbs eða 10Gbs ethernet. Í hverjum tengipunkti má tengja 6-10 aðila við RHnet án viðbótarbúnaðar.

Utan höfuðborgarsvæðis eru tengingar um ljósleiðara frá Orkuveitu Reykjavíkur til Hvanneyrar (þar sem Landbúnarðarháskóli Íslands er tengdur) og þaðan áfram til Bifrastar (þar sem Háskólinn á Bifröst er tengdur). Varasambönd eru um örbylgjukerfi Vodafone. Tenging til Akureyrar er um ljósleiðara yfir miðhálendið frá virkjunum Landsvirkjunar á Þjórsársvæði til Eyjafjarðar. Á Akureyri eru þrír tengipunktar hringtengdir. Ljósleiðari frá Reykjavík kemur inn í símstöðina á Akureyri þar sem RHnet er með tengipunkt. Þaðan eru tengingar í punkt við Eyrarveg (þar sem Fjórðunssjúkrahúsið tengist) og í Sólborg (þar sem Háskólinn á Akureyri tengist). Tenging milli þessara tengipunkta lokar síðan hringnum á Akureyri. Tengipunktur RHnet í Hafnarfirði (þar sem Hafrannsóknastfonun tengist) er tengdur um ljósleiðarakerfi Mílu við Neshaga og Tæknigarð.

Í höfuðstöðvum RHnet í Neshaga er önnur af tveimur 10Gbs tengingum RHnet við NORDUnet. Hin er staðsett í Tæknigarði. Þessum tengingum er stjórnað af tveimur Juniper MX240 beinum sem sjá um BGP samskipti við NORDUnet. Þessir jaðarbeinar RHnet sjá einnig um tengingar við RIX (skiptipunkt innlendrar internet umferðar) en um það samband fara samskipti RHnet við innlend net.

Tengipunktur NORDUnet á Íslandi er síðan tengdur umheiminum um 20Gbs tengingu um DANICE til Danmerkur og 20Gbs á FARICE til London.

Höfuðstöðvar RHnet við Neshaga hýsa einnig þjónustuvélar RHnet og Akamai vefspeglastæðu.